Strútsfoss

  • Hengifoss Strutsfoss Falls 1

  • Hengifoss Strutsfoss Falls 02

Um Strútsfoss

Strútsfoss í Strútsá steypist fram af brúnum Villingadals sem gengur inn af Suðurdal. Fossinn telst með þeim hærri á landinu en hann er tvískiptur. Neðri hluti hans er um 100 metra hár og sá efri um 20 metrar. Neðan fossins fellur áin í djúpu gili, Strútsgili, og sameinast Fellsá litlu neðar. Að öllum líkindum draga áin og fossinn nafn sitt af strýtulaga klettadrangi eða dröngum í gilinu. Strútsgil er afar litfagurt en í því skiptast á basalthraun og setlög sem eru tugir metra á þykkt. Mikið er um rauð og gulbrún millilög og líparít má sjá á einum stað. Innri-Þverá fellur ofan í gilið skammt frá Strútsfossi og myndar fallega fossaröð.

Gönguleiðin að Strútsfossi liggur fá Sturluflöt, innsta bæ í Suðurdal, austan Kelduár. Gengið er upp með Fellsá austanvert í Villingadal. Fossinn sést ekki fyrr en komið er býsna langt inn dalinn. Þá er hægt að ganga upp með Strútsgili þar sem komið er að því eða fara yfir göngubrú sem er neðarlega á Strútsá. Ekki er hægt að komast alla leið að fossinum nema fara niður í gilið og vaða ána nokkrum sinnum sem getur verið varhugavert. Ef tími er nægur er tilvalið að ganga upp á brúnir norðan við fossinn stefna síðan á Sturluárgljúfur sem er nokkru utar og koma ganga niður með því á leiðinni að Sturluflöt aftur. Strútsfoss er á náttúruminjaskrá.

© 2019 / Ferðaklasi Upphéraðs

For more information on Austurland: